Rings

16 leiðir til að minnka streitu

16leidirStreita og spenna eru algeng vandamál í íslensku þjóðfélagi og þótt víðar væri leitað. Kapphlaupið við klukkuna getur orðið að ávana og endalausri hringrás tímaskorts, svefnleysis og neyslu örvandi efna. Átt þú erfitt með að komast í gegnum daginn vegna þreytu, tauga- og vöðvaspennu? Finnurðu fyrir kvíða, svefntruflunum, svima, meltingartruflunum eða öðrum óþægindum? Þá er kominn tími til að sporna við fótum og gera eitthvað í málunum. Hér á eftir fylgja nokkrar tillögur um hvernig losa má um streituna og ná betri tökum á tilverunni.

Gerðu þindar- eða djúpöndunaræfingar Liggðu á maganum og láttu andlitið snúa niður og hvíla á höndunum. Andaðu hægt og djúpt í fimm mínútur. Eða ...sittu á stól sem hallar aftur. Settu aðra hönd þína á magann og hina á brjóstkassann. Taktu eftir því þegar þú andar hvort höndin á maganum hreyfist eða sú á brjóstinu. Ef höndin á maganum hreyfist upp og niður ert þú að ná djúpri öndun og anda rétt.

Reyndu að slaka á vöðvum líkamans með því að einbeita þér að einum og einum vöðvahóp í einu. Lærðu að þekkja muninn á vöðvaspennu og slökun og spenntu og slakaðu til skiptis í þeim tilgangi. 

Hugleiddu. Sittu með augun lokuð á rólegum stað og ímyndaðu þér útlit, hljóðin og lyktina af þínum uppáhalds stað. Þú gætir t.d. ímyndað þér að þú værir stödd á rólegri baðströnd eða á friðsælum stað upp til fjalla. Gættu að önduninni og andaðu djúpt og hægt.

Taktu frá sérstakan tíma á hverjum degi til þess að slaka á.

Hreyfðu þig reglulega. Hálftími þrisvar í viku er algert lágmark. Fólk sem hreyfir sig reglulega sefur m.a. betur og á auðveldara með að vakna á morgnana. 

Farðu í jóga

Gefðu þér tíma til að sinna áhugamálum, svo sem tónlist, myndlist, föndri, handavinnu eða öðrum áhugamálum sem fá þig til að gleyma daglegu amstri og slaka á.

Lærðu að þekkja og stjórna streituvöldum. Komdu þér upp ákveðnu skipulagi til að nota í kringumstæðum sem valda streitu.

Gerðu lista á hverjum degi yfir það sem þú þarft að taka þér fyrir hendur. Forgangsraðaðu verkefnunum og taktu þýðingarmeiri verkefni fram yfir þýðingarlítil. Vísaðu frá verkefnum sem þú ræður ekki við og gættu þín á að láta verkefnin ekki hrannast upp. Þannig færð þú þá tilfinningu að þú sért vel skipulögð og með hlutina á hreinu.

Vertu meðvituð um öll merki þess að þú sért að missa tökin. Ertu e.t.v. farin að reykja eða drekka meira en venjulega eða að fá minni svefn? Finnurðu fyrir þreytu, vöðvaspennu, verkjum, meltingartruflunum, hjartsláttarónotum, svima, svita eða öðrum óþægindum?

Forðastu koffein, alkóhól, nikótín, ruslfæði, lyf og að borða í óhófi.Drekktu mikið vatn.

Segðu NEI einstaka sinnum.

Reyndu að fá nægan svefn. Flest fólk þarf á bilinu átta til níu tíma svefn. Farðu að sofa hálftíma fyrr en venjulega og láttu sjónvarpið ekki stjórna svefntímanum.

Ræktaðu skopskynið. Varðveittu barnið í þér og reyndu að hlæja sem oftast.

Ekki hlaupa frá vandamálunum. Það gerir einungis illt verra. Fagnaður þeim frekar því þau eru einungis til að leysa.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk sem á maka og/eða nána trúnaðarvini finnur minna fyrir streitu en aðrir. Talaðu um vandamálin við fjölskyldu og vini. Betur sjá augu en auga og oft geta hinir nánustu hjálpað til.

Höfundur: Heiðdís Lilja
Grein úr Nýju Lífi