Ánægjulítið samlíf
Í Bandaríkjunum og Bretlandi hefur mikið verið rætt og ritað um það að undanförnu hvað nútímakonur virðast hafa litla ánægju af kynlífi. Þetta hefur komið fram í nokkrum könnunum og er auðvitað afar dapurlegt ef satt er. Árið 2002 voru niðurstöður einnar slíkrar könnunar birtar í Bretlandi. Þátttakendur voru konur á aldrinum 18-59 ára og sögðust rúmlega 40% þeirra ósátt með kynlífið.
Einungis um 20% þessara ófullnægðu kvenna höfðu leitað ráða hjá lækni. Hinar kusu frekar að þegja um vandamálið vegna þess að þeim þótti svo vandræðalegt að þurfa að ræða þetta. Læknunum sem framkvæmdu könnunina þótti þetta auðvitað miður. Bentu þeir á að tilkoma viagra hefði rutt úr vegi fordómum og feimni varðandi kynlífsvandamál karla. Nú þyrftu konur að verða ófeimnari við að fá aðstoð við að lifa ánægjulegra kynlífi. Ýmislegt væri nefnilega hægt að gera til að hjálpa þeim allt eftir því hvert vandamálið væri.