Rings

Appelsínuhúð-martröð kvenmannsins

appelsinuhudHvað er appelsínuhúð?

Appelsínuhúð er ósköp venjuleg fita. Appelsínuhúð myndast þegar net bandvefstrefja sem liggja milli vöðva og húðar skipta fitunni, t.d. eins og vatterað teppi. Því meiri fita sem við höfum því ójafnari verður áferðin. Jafnvel örþunnt lag af fitu getur einnig verið ójafnt. Tágrannar konur geta sem sagt verið með appelsínuhúð alveg eins og þrýstnar konur. Við þorum varla í sund eða afklæða okkur að öðru leyti því við erum svo hræddar við það að einhver glápi á appelsínuhúðina á rassinum á okkur. Þvílíkt bull! En staðreyndin er sú að langflestir karlmenn vita ekkert hvað appelsínuhúð er og taka ekkert eftir henni. Í einni rannsókn sem gerð var var fimmti hver karlmaður sem hélt að “cellulite” væri batterístegund! Reynum að sætta okkur við þetta því það er ekkert sem við getum gert til að fjarlægja hana, appelsínuhúð gengur í erfðir.

Appelsínuhúð í lágmarki

Það eru til ótal meðferðar og krem í boði fyrir fólk og þá helst konur sem eru með appelsínuhúð, fáar virka. Fegrunariðnaðurinn er alltaf að bjóða upp á einhverjar skyndilausnir eins og pillur, krem, gel, trimmform, nudd og ýmislegt annað sem kannski kalla má óskhyggju. Allar þessar skyndilausnir og öll þessi krem geta aðeins lofa mjög mildum árangri og jafnvel engum. Við viljum gera allt til að losna við þessa blessuðu appelsínuhúð og erum þar af leiðandi svo móttækileg fyrir öllu sem í boði er. Undirrituð er búin að prófa þetta ALLT og er enn með jafnmikla appelsínuhúð og áður. Langbesta lausnin er að hreyfa sig reglulega og borða fitulitla fæðu. Einnig er gott að bursta húðina tvisvar á dag frá toppi til táar, og er mjög mikilvægt að hjakkast ekki á húðinni heldur bursta í átt að hjartanu.  Hugsum vel um hvað við setjum ofan í okkur og hreyfum okkur daglega að einhverju leyti og þá getum við haldið appelsínuhúðinni í eins miklu lágmarki og hægt er en hún hverfur ekki.

Höfundur: Guðbjörg Magnúsdóttir