Rings

Brúðkaupsnóttin

Ef ætlunin er að verja brúðkaupsnóttinni fjarri heimili er gott að panta herbergi eða brúðarsvítuna með góðum fyrirvara. Fari brúðkaupsveislan fram á hóteli fá brúðhjón góðan afslátt af gistingu í brúðarsvítu. Svo er án efa afar rómantískt að fara upp í sumarbústað og njóta brúðkaupsnæturinnar í kyrrlátri sveitasælunni.

Fyrstu þrjár nætur hjónabandsins eru kallaðar Tobíasarnætur. Gömul hjátrú er að þá megi karlar ekki hafa samræði við konur sínar. Árni Björnsson bendir á það í bókinni Merkisdagar á mannsævinni að einhvers konar krafa um nærgætni við fyrstu kynmök sé grundvallarhugmyndin á bak við þessa hjátrú. Nú til dags eru mey- og sveindómar hins vegar löngu foknir þegar brúðkaupsnóttin rennur upp þannig að brúðhjón láta hjátrúna eflaust ekki setja sér stólinn fyrir dyrnar. Það væri nú líka auma brúðkaupsnóttin ef ekkert mætti!

Gisting: Sum brúðhjón gista einfaldlega heima hjá sér á brúðkaupsnóttinni. Aðrir gista á hóteli eða í sumarbústað uppi í sveit. Gisting í brúðarsvítu á fjögurra stjörnu hóteli - morgunmatur og freyðivín innifalið: 26.800-31.900 kr. (eftir árstíma). Verðdæmi frá Hótel Loftleiðum. Haldi brúðhjónin veisluna á hótelinu er gisting innifalin í verði.

Höfundur: Heiðdís Lilja
Grein úr Nýju lífi