Rings

Fegrunarráð frá fjölmörgum löndum

fegrunarradframorgumlondumHvernig fara konur í öðrum löndum að því að líta vel út? Búa þær yfir leyndarmálum sem við þekkjum ekki? NÝTT LÍF kannaði málið og komst að því að í hverju landi er að finna konur sem nota frumlegar og stundum ævafornar leiðir til að hressa upp á útlitið!!

Grikkland: 
Grískar konur nota sand í staðinn fyrir kornakrem til að fríska upp á húðina og fjarlægja dauðar húðfrumur. Þær byrja á að bera olíu á húðina, strjúka síðan sandi yfir og baða sig síðan í sjónum. Loks bera þær á sig sólvarnarkrem því húðin er sérstaklega viðkvæm fyrir sólinni á eftir. Þær mæla líka með Body Exfoliating Gel frá Shiseido.

Japan: 
Japanskar konur borða mjög næringarríkan mat og álíta að það hjálpi þeim mest við að líta vel út. Á matseðlinum hjá þeim eru aðallega hrísgrjón, sojabaunir og sjávarfang. Einnig baða þær sig oft í heitum hverum til að mýkja húðina.

England: 
Englendingar eru þekktir fyrir tedrykkju en það eru færri sem vita að enskar konur nota te líka sem fegrunarmeðal. Þær setja notaða tepoka í ísskápinn og næsta morgun leggja þær þá í stutta stund yfir augnlokin og koma þannig í veg fyrir poka undir augum og dökka bauga. Í staðinn fyrir tepoka mæla þær með Hydra Thé Vitalisant frá Bulgari, en það er unnið úr grænu tei.

Suður-Ameríka: 
Ótrúlegt en satt! Suðuramerískar konur nota avókadó ávöxtinn til að næra hárið og gefa því glans. Þær pressa safann úr vel þroskuðum ávexti, nudda honum síðan í hársvörðinn, láta hann virka í klukkutíma og þvo því næst úr með venjulegu sjampói. Avókadó olía getur gert sama gagn.

Suður-Afríka: 
Konur í Suður-Afríku nota afurðir aloe plöntunnar til fegrunar, bæði sem krem og drykki svo sem saft eða te.

Brasilía: 
Þar mæla konur með jojobaolíu fyrir húð og hár, helst náttúrulegri en ef hún fæst ekki er hægt að nota t.d. Éclat du Jour frá Clarins.

Spánn: 
Ólífuolía gerir ekki aðeins gagn í eldhúsinu. Hana er líka gott að nota til að styrkja neglurnar. Spænskar senjórítur blanda volgri ólífuolíu og sítrónusafa saman og nudda vel inn í neglurnar til að veita þeim raka og mýkt. Ólífuolíuna nota þær einnig til að næra hárið og gefa því glans. Þær láta olíuna vera í hárinu í 20 mínútur og þvo hana síðan úr með sápu. Að lokum luma þær á leyndarmáli sem við getum vel nýtt okkur. Þær nota sjávarsalt til að fríska upp á húðina. Þær setja handfylli af salti út í baðvatnið, bæta við nokkrum dropum af ilmolíu og baðið verður fullkomið.

Finnland: 
Finnskar konur skella sér í ískalt vatn eftir heitt sánabað til að koma blóðinu á hreyfingu. Þær segja þetta ótrúlega gott fyrir útlit og heilsu!!

Portúgal: 
Í Portúgal er edik notað til að skerpa háralitinn. Ediki og vatni er blandað saman til helminga til að skola hárið. Þetta á sérstaklega vel við brúnt eða rautt hár. Bjór er hins vegar góður fyrir fíngert hár. Þá er hálf flaska af bjór notuð til að skola síðustu sápuleifarnar úr hárinu. Eggjarauða hefur líka komið í góðar þarfir en hún er þvegin úr eftir nokkrar mínútur og best er að nota ilmandi sjampó því eggjarauðan skilur eftir sig sterka lykt.

Frakkland: 
Frakkar eru allra þjóða duglegastir við að drekka vín og nú hafa þeir tekið sig til og bjóða upp á vínmeðferð - en þó í öðrum skilningi en við eigum að venjast. Næringin úr vínberjunum er nefnilega notuð til að búa til bakstra sem hressa upp á líkama og sál.

Holland: 
Hollendingarnir eru svo sniðugir að nota ferska loftið sitt sér til heilsubótar. Þeir fara í gönguferðir meðfram sjónum eða í skógarferðir til að hressa upp á líkamann og tæma hugann.

Argentína: 
Þær eru ekkert að tvínóna við hlutina í Argentínu. Ef andlitskremið er búið er bara farið í ísskápinn og sóttur rjómi, sem er þeyttur og síðan smurður á andlitið. Þetta á að vera mjög frískandi og endurnærandi fyrir húðina. Rjóminn er síðan skolaður af eftir nokkrar mínútur.

Ítalía: 
Þar nota konurnar sítrónusafa til að lýsa upp hárið og fara síðan út í sólina en þessi tvenna á að hafa stórkostleg áhrif. Ef þær sólbrenna nota þær jógúrt til að kæla húðina.

Kína
Hunang, mjólk og eggjahvíta geta komið að góðum notum í annað en matreiðslu. Kínverskar konur blanda þessu þrennu saman í andlitsmaska sem hefur reynst vel gegn bólum og hrukkum. Einnig er þekkt að konur noti hrísgrjónaedik sem andlitsvatn eða út í baðið.

Filippseyjar: 
Kókosolía á heiðurinn að því hversu glansandi og fallegt hár filippeyskra kvenna er og hvað húð þeirra er björt og fersk. Gott er að bera volga kókosolíu í hárið og láta hana vera í 20 mínútur áður en hún er skoluð úr.

Rússland: 
Rússneskar konur fara í Banya sem er annað heiti yfir finnskt sánabað, nema hvað loftið er ívið rakara. Til að svitna enn betur og skola öllu óhreinindi úr svitaholunum skrúbba þær húðina með hunangi eða kaffikorg. Í þessu sánabaði er nauðsynlegt að drekka mikinn vökva og því blanda sumar saman vatni og hunangi og fá þannig ágætis svalardrykk.

Pólland: 
Í hundruð ára hafa pólskar konur borið hunang á varirnar á sér til að þær fái nægan raka og verði silkimjúkar.

Sigríður Inga
Grein úr Nýju lífi