Rings

Fjárhagsáætlun

fjarhagsaaetlunMennirnir eru jafnmisjafnir og þeir eru margir og það sama á við um hvernig þeir kjósa að ganga í hjónaband. Sumir safna í mörg ár til að eiga fyrir veislunni, kjólnum og brúðkaupsferðinni - en aðrir skreppa til sýslumanns og fara svo í útilegu uppi í sveit.

Ákveðin atriði eru þó hverri hjónavígslu bráðnauðsynleg:

  • Vottorð um hjúskaparstöðu frá Hagstofunni. Verð: 900 kr.
  • Giftingarhringar. Meðalverð: 60.000-150.000 kr. (Verðdæmi frá versluninni Gull & Silfur, Laugavegi.) 
  • Tveir svaramenn - þurfa þó ekki endilega að vera viðstaddir þegar um borgaralega hjónavígslu er að ræða. 
  • Prestur eða sýslumaður. Borgaraleg hjónavígsla: 7.700 kr.Kirkjuleg hjónavígsla: Prestur: 10.000 kr. Leiga á kirkju: 5.000 kr. Útkall kirkjuvarðar: 5.000 kr. Samtals 20.000 kr. Vilji fólk fá organista í athöfnina bætist við um 15.000-35.000 kr. eftir því hversu mikið er spilað og æft (t.d. með söngvara). Einsöngvarar taka margir 25.000-30.000, kórar 8.000-10.000 á mann.   

Þeir sem vilja vera flottir á því bjóða svo vinum og vandamönnum til veislu. Þá er ekki úr vegi að hafa eftirfarandi lista í huga.

Leiga á sal: Hægt er að leigja sal á vegum íþrótta- og átthagafélaga eða í félags- og safnaðarheimilum en einnig er hægt að leigja sal með veisluþjónustu. Verð fer að sjálfsögðu eftir umfangi brúðkaupsins og gestafjölda. Brúðarkaffi: Frá 2000 kr. á mann. Þriggja rétta kvöldverður með tertu: Frá 3000 kr. á mann. Pinnamatur: Frá 1700 kr. á mann. Innifalið í verði er salur, öll þjónusta og gisting á hótelherbergi. Verðdæmi frá Veitingasölum Hótel Loftleiða.

Leiga á veislutjaldi: Smærri tjöld (20-60 m2) eru á verðbilinu 25.000-45.000 kr. Þegar um stærri tjöld er að ræða, svokölluð brúðkaupstjöld, er miðað við 750 kr./m2 og þannig myndi 100 m2 tjald því kosta 75.000 kr. Einnig er hægt að leigja tjald með tré- eða plastgólfi, svo og borð og bekki. Greitt er sérstaklega fyrir uppsetningu og flutning á tjaldinu, sé þess þörf. Verðdæmi frá Seglagerðinni Ægi.

Hárgreiðsla: 13.000 kr. - prufugreiðsla innifalin. Verðdæmi frá hárgreiðslustofunni Andromeda.

Fatnaður: Leiga á brúðarkjól: Um 25.000-40.000 kr. Leiga á fatnaði brúðgumans: Frá um 6000-14.000 kr. Leiga á fatnaði brúðarmeyja og -sveina: 5500 kr. Verðdæmi frá Brúðarkjólaleigu Dóru.

Förðun: 8.900kr. - prufuförðun innifalin. Verðdæmi frá Paradís.

Boðskort: 150 x 150 mm boðskort í 30-150 eintökum með umslagi (4 síður/1 litur): 19.000-28.000 kr. Verðdæmi frá prentsmiðjunni Gutenberg.

Servíettur: Servíettupakki með 80 áletruðum servíettum: 2490 kr. Verðdæmi frá Blómavali.

Borðbúnaður: Borðbúnaður er yfirleitt innifalinn hjá veisluþjónustum en sé hann leigður út þarf að ganga úr skugga um hvort honum megi skila óhreinum. Matardiskur: 30 kr. Gaffall: 16 kr. Hnífur: 16 kr. Bolli: 30 kr. Kökudiskur: 28 kr. Kökugaffall: 14 kr. Glas: 28 kr. Verðdæmi frá Borðbúnaðarleigunni sf.

Gestalisti: Fljótlega eftir að brúðkaupsdagurinn hefur verið negldur niður er gott að setja saman gestalista til að fá hugmynd um kostnað og umfang brúðkaupsins. Gott er að geyma gestalistann, ásamt öðrum upplýsingum um brúðkaupið, í sérstakri möppu og merkja við hvern og einn þegar hann staðfestir boðið.

Gjafalisti: Gjafalistar í verslunum auðvelda brúðkaupsgestum að finna réttu brúðargjöfina. Stundum er hann sendur út með boðskortunum en yfirleitt hafa gestir samband við foreldra brúðhjónanna sem benda á í hvaða verslunum gjafalistarnir séu. Á gjafalistum er gott að hafa hluti á mismunandi verði sem hentar fjárhag hvers og eins.

Brúðarmyndir: Nú til dags fá margir atvinnuljósmyndara til að taka myndir við athöfnina og jafnvel í veislunni líka en ef góðir áhugaljósmyndarar leynast innan fjölskyldunnar má nýta sér þá. Við slíkar aðstæður er þó vissara að fá fleiri en einn til að taka myndir - ef ske kynni að eitthvað færi úrskeiðis. Útimyndataka og myndataka í kirkju, 60-70 myndir í svarthvítu og lit, stækkaðar upp í 13x18 og 18x24: 73.000 kr. Verðdæmi frá Sissu ljósmyndara.

Brúðarbíll: Brúðarbíllinn er notaður til að flytja brúðina til kirkjuog brúðhjónin frá kirkju til gestamóttöku. Ef ekki er hægt að fá einhvern nýjan og fallegan fjölskyldubíl að láni er t.d. hægt að leita til leigubílastöðva, Eðalvagnaþjónustunnar, bílaleiga og Fornbílaklúbbsins. Hefð er fyrir því að skreyta brúðarbílinn með ýmsum hætti og sumir fá blómaskreytingameistara til þess að sjá um það. Hugið tímanlega að brúðarbílnum og verið með varabíl til taks ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis. Dæmi um verð fyrir fornbíl er um 40.000 kr.  

Brúðarterta: Bakarí, konditorí og veisluþjónustur sjá um að útbúa glæsilegar brúðartertur eftir persónulegum óskum brúðhjónanna. Öllu máli skiptir auðvitað að tertan bragðist vel og ættu brúðhjón alltaf að fá að smakka á nokkrum sýnishornum þegar kakan er valin. Hefðin er sú að brúðhjónin skera fyrstu sneiðina af brúðartertunni í sameiningu, þ.e. brúðguminn leggur hönd sína yfir hönd brúðarinnar um leið og hún sker. Ef um kransaköku er að ræða skipta brúðhjónin efsta hluta kökunnar á milli sín. Verð: 500 kr. á mann. Verðdæmi frá Café Konditori.

Brúðarvöndur og barmblóm: Brúðkaupsvendir eru af öllum stærðum og gerðum en við val á þeim þarf að huga að því að litir vandarins samræmist litarhætti og förðun brúðarinnar. Sumar konur kjósa liti í vöndinn sem passa vel við kjólinn en aðrar vilja sterka liti sem mynda andstæðu við hann. Hægt er að fá kúlu- eða dropalaga vendi og allt þar á milli. Brúðarvendir: 12.000-20.000 kr. Brúðarmeyjarvendir: 2500-4000 kr. Barmblóm: 890 kr. Verðdæmi frá Garðheimum.

Skreytingar: Lifandi skreytingar kosta allt frá 4000 kr. og upp úr. Bílaslaufur: 6000-8000 kr. Einnig er hægt að leigja alls kyns brúðarboga sem kostar 15.000 kr. Verðdæmi frá Garðheimum.

Drykkir: Í venjulegri vínflösku eru 75 cl en slík flaska dugir í 6 vínglös. Reikna má með eftirfarandi magni af víni á mann: 
Brúðarskál: 2-3 glös 
Kampavín eða freyðivín í u.þ.b. 2 klst: 3-4 glös 
Hvítvín með forrétti: 1-2 glös 
Hvítvín/rauðvín með aðalrétti: 3-4 glös 
Vín með eftirrétti: 1-2 glös 
Alls eru þetta 10-14 glös eða um ein og hálf til rúmlega tvær flöskur á mann. Munið að bjóða einnig upp á óáfenga drykki.

Tónlist: Dinnertónlist í veislu kostar frá 20.000 kr. miðað við einn hljóðfæraleikara. Séu hljóðfæraleikarar fleiri hækkar verðið að sama skapi. Verð á diskóteki í 4 tíma, 55.000, dæmi fráDúndur. 

Morgungjöf: Það er gamall íslenskur siður að brúðgumi gefi brúði sinni morgungjöf morguninn eftir brúðkaupsnóttina og þá yfirleitt einhvern skartgrip. Margar íslenskar konur eru orðnar svo jafnréttissinnaðar að þær færa eiginmönnum sínum einnig morgungjöf og hafa áletraðir herrahringar, vasapelar og fleira notið mestrar hylli hingað til.

Gisting: Sum brúðhjón gista einfaldlega heima hjá sér ábrúðkaupsnóttinni. Aðrir gista á hóteli eða í sumarbústað uppi í sveit. Gisting í brúðarsvítu á fjögurra stjörnu hóteli - morgunmatur og freyðivín innifalið: 47.100 kr. (eftir árstíma). Verðdæmi frá Hótel Holti. Haldi brúðhjónin veisluna á hótelinu er gisting innifalin í verði.

Höfundur: Heiðdís Lilja
Grein úr Nýju lífi