Fötin hans
Úrvalið af fötum fyrir brúðgumann er alltaf að aukast. Undanfarið hafa ensk hefðarmannsföt (á ensku jackett, en það eru teinóttar buxur, lafajakki og vesti með slifsi eða hálsklút) verið mjög vinsæl en nú eru hin glæsilegu kjólföt komin í tísku aftur. Einnig er smóking, íslenski hátíðarbúningurinn eða falleg jakkaföt sívinsæl en eins og brúðurin ætti brúðguminn að velja þau föt sem fara honum best og honum líður vel í. Ef brúðguminn er hár og grannur getur hann farið í nánast hvað sem er. En brúðguminn ætti að máta nokkur föt til að sjá betur hvað klæðir best. Við val á vesti eða hálstaui þykir við hæfi að brúðguminn velji liti úr klæðnaði brúðarinnar eða brúðarvendi til að brúðhjónin séu í stíl.
Fatnaður brúðarmeyja, brúðarsveina og svaramanna er oftast valinn í samræmi við það sem brúðhjónin klæðast. Að lokum er vert að minna á að yfirfara skófatnað, bursta skóna og taka verðmiða af sólunum og slíkt því að þeir blasa við kirkjugestum þegar kropið er við altarið.