Gæs gæs gæs
Fullkominn undirbúningur
- Það sem gerir gott gæsapartý frábært er fólkið sem tekur þátt í því. Það er best að einhver bjóði sig fram sem þekkir brúðina mjög vel til að skipuleggja gæsapartýið. Sú manneskja, hvort sem það er systir eða góð vinkona, veit hverjum hún á að bjóða og hverjum ekki.
- Þegar það liggur fyrir hver stjórnar undirbúningnum þurfa þátttakendur að koma sér saman um hvað hver og einn leggur í púkkið. Þá er fyrst hægt að hefjast handa.
- Ef þátttakendur eru á öllum aldri þarf að finna eitthvað við allra hæfi. Ekki væri þá svo vitlaust að skipta hópnum í tvennt og halda tvö mismunandi partý.
- Það væri mjög sniðugt að ákveða sérstakt þema fyrir partýið með góðum fyrirvara svo fólk geti fundið sér föt og fylgihluti í tækan tíma.
- Ef þið eruð margar saman skulið þið muna að biðja ávallt um hópafslátt á vörum og þjónustu.
- Gerið ráð fyrir mat yfir daginn svo að gæsin og aðrar gellur verði ekki of drukknar. Oft eru þetta langir dagar og margar uppákomur og væri mjög leiðinlegt ef fólk missti stjórn á sér í herlegheitunum.
- Það ætti ekki að þurfa taka það fram að mjög óráðlegt er að halda gæsapartý kvöldið fyrir brúðkaup og helst ekki einu sinni í vikunni áður. Það er svo ótrúlega mikið um að vera hjá brúðhjónum í þeirri viku.
10 hugmyndir af góðu gæsapartýi
Náttfatapartý
Ekta náttfatapartý er frábær hugmynd. Þá er um að gera að leigja sumarbústað og taka náttfötin með ein fata. Þið getið lakkað tásurnar og hlustað á tónlist frá unglingsárunum og skálað í freyðivíni.
Slökun og spa
Í öllu brúðkaupsstressinu er upplagt að bjóða gæsinni t.d. í slökunarnudd og andlitsbað á góðu heilsuhúsi. Á meðan geta hinar stelpurnar farið í jóga eða leikfimitíma eða bara beðið í pottinum eftir að dekri gæsarinnar ljúki. Einnig væri hægt að fá nuddara eða jógakennara heim til einhverrar svo allir geti tekið þátt.
Flæðandi adrenalín
Fyrir þær sem kjósa almennilegt fjör væri hægt að slá saman fyrir gæsina í listflug eða teygjustökk. Einnig væri hægt að fara í “river rafting” fyrir þær sem vilja enn meiri spennu.
Fyrir listamenn og menningarvita
Finnið einhverja frábæra listasýningu til að fara á. Endið kvöldið á góðum dinner og tónleikum. Þið getið gefið henni lítinn pakka með bók um uppáhaldslistamanninn hennar. Einnig getið þið skráð ykkur saman á námskeið og fræðst um eitthvað spennandi.
Slegið saman í eitt
Það verður æ algengara að pör óski eftir því að gæsa- og steggjapartýjum sé slegið saman. Það er heldur ekki svo vitlaus hugmynd og þá er sniðugt að ein stelpa og einn strákur plani daginn saman.
Gæsin býður
Það getur vel verið við hæfi að gæsin vilji bara sjálf bjóða sínum bestu vinkonum heim í mat. Svo gætuð þið farið á ball og tjúttað fram á rauða nótt.
Lært að elda
Gaman væri að fara saman á matreiðslunámskeið og læra að elda að hætti Indverja, Marokkóa, Afríkubúa eða Japana. Þetta er sniðugt fyrir þær sem hafa mikinn áhuga á eldamennsku.
Hár og förðun
Þið getið fengið hárgreiðslumeistara og förðunarfræðing til að koma heim og halda smá námskeið. Konur með sítt hár geti lært að setja hárið upp og þær með stutt hár geti fengið smá tilbreytingu í hárgreiðsluna. Einnig geta allar lært að farða sig fyrir fyrirliggjandi brúðkaup.
Söngelskar gæsir
Ef gæsin hefur mikinn áhuga á söng væri frábært að gefa henni stúdíótíma. Þið getið farið saman eða þið gætuð boðið henni að fara seinna þegar hún væri búin að undirbúa sig eitthvað.
Annað
Eitt sem gæti verið mjög sniðugt er að fá einhvern til að koma heim og vera með spennandi fyrirlestur. T.d. einkaþjálfara eða einhvern sem getur frætt ykkur um hvernig þið getið fengið sem mest út úr lífinu. Fyrir forvitnar sálir sem hafa áhuga á andlegum málefnum er tilvalið að fá spákonu í heimsókn.
Möguleikarnir eru óteljandi og það eina sem þið eigið að plana er að hafa það skemmtilegt!