Rings

Hjálp - ég á tvo pabba

Flókin fjölskyldumunstur geta haft mikil áhrif á brúðkaupsundirbúninginn. Nútímafjölskyldur eru í öllum stærðum og gerðum og er ekki ólíklegt að fólk eigi fleiri en eina fjölskyldu. Það getur verið flókið fyrir brúði að eiga tvo pabba ... hvor leiðir hana þá inn altarið?

Pabbi borgar?

Það er hefð fyrir því í fjölmörgum löndum að faðir brúðarinnar haldi veislu brúðhjónunum til heiðurs. Ef feðurnir eru tveir væri sniðugt ef þeir gætu komið sér saman um að deila kostnaðinum. Þá er gott að setjast niður með allri fjölskyldunni og vera með vel skilgreinda fjárhagsáætlun og þá geta fjölskyldurnar komið sér saman um hver á að borga hvað. Kannski er þetta svo byrjun á skemmtilegri samvinnu.  Engu að síður verða oft árekstrar um hvað eigi að gera og hvernig hlutirnir skulu vera. Smekkur fólks er mismunandi og í svona aðstöðu er mikilvægt að fólk taki tillit til hvors annars, og þá helst brúðhjónanna. Því miður þá lenda brúðhjónin stundum á milli, og vilja allt í einu gera öllum öðrum til hæfis en sjálfum sér. Brúðhjón, verið óhrædd við að tjá hvað það er sem þið viljið og verið óhrædd við að minna fólk á að þetta er ykkar dagur.

Ykkar eigin herrar

Það verður æ algengara að brúðhjónin borgi fyrir brúðkaup sitt. Ef það er fjárhagslegur möguleiki er ekki spurning að það er góður kostur. Þá geta brúðhjónin algerlega stjórnað brúðkaupsundirbúningi frá a-ö og verið laus við óþarfa árekstra sem geta komið upp. Það er ekki þar með sagt að fjölskyldan geti ekki hjálpað til við undirbúninginn því það er í mörgu að snúast. Nú ef mamma vill borga tertuna eða pabbi borga kjólinn þá er það bara plús.

Gestalistinn

Það er stundum viðkvæmt mál hverjum á bjóða og hverjum ekki og oft skapar þetta þras milli fjölskyldna. Það vilja náttúrulega allir bjóða öllum, en við vitum það að oftast er sá möguleiki ekki raunhæfur. Fyrst verður að ákveða hámarksfjölda gesta. Vinnið ykkur út frá nánustu ættingjum og vinum og sjáið hvar það endar. Verið óhrædd að bjóða frekar þeim sem þið umgangist meira heldur en fjarskyldum ættingjum sem þið sjáið aldrei. Þið þurfið heldur ekki að bjóða sama fólki og var í brúðkaupi systkina ykkar, þetta er ykkar brúðkaup.

Boðskortin

Það ríkir einnig sú hefð að sá aðilli sem heldur veisluna og borgar hana sendir út boðskortin. Þetta getur skapað særindi, þó sérstaklega ef það eru tveir feður. Þá getur verið sniðugt að báðar fjölskyldurnar skrifi undir boðskortin, þá er eins og þær báðar séu að bjóða til veislunnar. Einnig getur verið einfalt að brúðhjónin sendi boðskortin frá sér, og þótt annar borgi brúsann.

Hver leiðir inn gólfið?

Ef brúðurin á tvo pabba getur hún staðið frammi fyrir mjög erfiðri ákvörðun. Ef þú getur ekki gert upp á milli þeirra þá er ekki úr vegi að láta þá báða leiða þig inn gólfið. Ef stjúpi þinn er sá sem ól þig upp og þig langar til að velja hann, gerðu það. Hlustaðu á hjarta þitt! Þú getur líka beðið bestu vinkonu þína eða bara mömmu þína ef þér reynist of erfitt að gera upp á milli feðranna.

Háborð

Það getur verið einnig verið snúið að raða gestum til háborðs þegar fjölskyldan er stór. Hefðin segir að pabbinn eigi að sitja við hlið brúðarinnar, en ef þeir eru tveir þá er það erfitt. Þá getur verið sniðugt að sleppa háborðinu alveg og vera með hringborð. 

Lokaorð: Takið hvort öðru eins og þið eruð og haldið friðinn... þá verður þetta skemmtileg og ógleymanleg stund eftir ykkar höfði.

Höfundur: Guðbjörg Magnúsdóttir