Hláturinn og persónuleikinn
Hægt er að komast að ýmsu um persónuleika fólks með því að hlusta á hlátur þess samkvæmt bók eftir bandarískan sálfræðing, Elayne Kahn. En hún nefnir 1001 aðferð til að afhjúpa persónuleika fólks. Hlátur er atferli sem hefur valdið fræðimönnum talsverðum heilabrotum. Fyrir nokkrum árum uppgötvuðu vísindamenn ákveðna stöð í heilanum sem virðist stjórna hlátrinum. En enn þann dag í dag hafa fræðimenn ekki hugmynd um af hverju við erum eina dýrategundin sem hefur kímnigáfu, sem getur verið misjöfn milli manna sem og hvernig fólk tjáir hana. Fólk hlær á mismunandi hátt og eftirfarandi eru nokkrur dæmi um hvernig má lesa eitthvað um persónuleika fólks út frá hlátri þess.
Þeir sem flissa, eru sagðir bjartsýnir, ungir í anda og hressir.
Þeir sem hneggja, eru yfirleitt skemmtilegir og vinsælir. Þeir eru óhræddir við að sleppa fram af sér beislinu. Og þegar þeir standa frammi fyrir einhverjum erfiðleikum eru þeir úrræðagóðir og djarfir.
Þeir sem hlæja hrossahlátri, eru opnir persónuleikar, t.d. skemmtikraftar.
Þeir sem hlæja bældum hlátri, eru afslappaðir og umgangast fólk mjög auðveldlega. En þeir eiga til að hlæja að óförum annarra.
Þeir sem gefa frá sér hláturgusur, eru feimnir og bæla hláturinn niður þangað til að þeir springa allt í einu. Þeir eru hógværir og kurteisir.
Þeir sem hlæja “venjulegum” hlátri, eru yfirleitt góðhjartaðir, þolinmóðir einstaklingar og traustir vinir.
Það er sagt að hláturinn lengir lífið og það er alveg dagsatt. Hann er góður fyrir hjartað og æðakerfið og einnar mínútu hlátur er á við 10 mínútna púl. Svo á hláturinn að styrkja ónæmiskerfið að einhverju leyti en sérfræðingar hafa ekki fundir almennilega skýringu á þessu frábæra fyrirbæri sem hláturinn er. Tökum okkur saman og hlæjum við hvert tækifæri sem gefst, það er svo gott.