Rings

Hvernig eiga mömmurnar að klæða sig?

mommurnarÞað er tilvalið fyrir mæður brúðhjóna að fá sér nýtt dress fyrir brúðkaupið. Gefið ykkur góðan tíma til að leita, því yfirleitt finnur fólk ekkert ef það er að leita í stressi og tímaþröng. Það eina sem er algert tabú er hvítur klæðnaður. Þessi venja hefur haldið sér í gegnum tíðina, og er skiljanleg þar sem ekkert má skyggja á brúðina á hennar degi. Ef þið viljið klæðast ljósu veljið þá frekar lit eins og drapplitaðan, ljósfjólubláan, ljósbleikan eða gráan. Einnig er svartur alltaf klassískur og er það alls ekki ósmekklegt að klæðast svörtu í brúðkaupi. Ef þið ætlið ekki að kaupa ykkur kjól getið þið leigt hann. Kjólaleigurnar eru með fullt af mjög fallegum kjólum og drögtum í öllum stærðum og gerðum. 

Kjóll eða dragt?

Ef brúðkaupið er að deginum til þá passar vel að vera í dragt eða léttum kjól. En ef um kvöldbrúðkaup er að ræða þá er tilvalið að vera í síðkjól. En auðvitað klæðið þið ykkur eftir smekk og þannig að ykkur líði vel í. Það væri sniðugt að taka góða vinkonu með í búðirnar til að fá annað álit. Oft eru konur á miðjum aldri hræddar við að breyta til og eru fastar í sínum stíl. En þetta er einmitt tíminn til að dressa sig verulega upp og breyta til. Ef kjóllinn ykkar er fleginn þá er tilvalið að vera í jakka utan yfir sem þið getið síðan farið úr í veislunni.

Hvernig á hárið og förðunin að vera?

Ef þú hefur tækifæri til er það tilvalið að láta fagfólk sjá um að greiða þér og farða. En taka verður tillit til þess hvernig fötin eru og vinna út frá þeim. Ef brúðkaupið er að deginum til passar ekki að vera með svakalega uppgreiðslu eða með mikla kvöldförðun, heldur mildari liti og náttúrulegri hárgreiðslu. Ef um kvöldbrúðkaup er að ræða þá er um að gera að nota tækifærið og leyfa sér svolítinn glamúr. Ef þið ætlið að gera þetta sjálfar og viljið vera í tískunni eða prófa eitthvað nýtt er tilvalið að fjárfesta í tímariti um hár og förðun þar sem má ef til vill finna einhverjar hugmyndir um útlit og klæðnað 

Flestar konur sammála um að það er gaman að líta vel út. Þið mömmur gegnið miklu hlutverki þennan dag, og þið megið alveg vera svolítið áberandi og fallegar ef ykkur langar til.

Gangi ykkur vel og góða skemmtun!

Höfundur: Guðbjörg Magnúsdóttir