Rings

Ný manneskja

nymanneskjaÞegar okkur líður sérlega vel, til dæmis eftir góðan svefn eða afslappandi frí, segjum við oft “ég er alveg eins og ný manneskja”. En við gerum okkur hugsanlega ekki grein fyrir að það er mikið til í þessu. Hvert líffæri er í sífelldri endurnýjun, og sem dæmi endurnýjar beinagrindin sig u.þ.b. tíu til tólf sinnum á meðalævi. Þannig að þegar við tölum um það að við séum nýjar manneskjur þá er það bara dagsatt.

Mjúkir vefir líkamans endurnýjast hraðast, stundum bara á nokkrum dögum. Ef þú ferð í viku ferðalag kemur þú með aðra slímhúð innan á maganum en þú varst með í upphafi ferðarinnar. Aðrir líkamshlutar endurnýja sig á lengri tíma. Vöðvarnir endurnýja sig á nokkrum mánuðum. En endurnýjun beinanna gengur hægt fyrir sig eða á sirka 7 árum. Einstaka líkamshlutar endurnýjast ekki eftir að ákveðnu stigi er náð, m.a. ákveðin prótein í augasteininum sem breytast ekki frá því að við erum í móðurkviði. Taugafrumur haldast líka að mestu óbreyttar þar sem við fæðumst með magn sem dugar okkur út lífið.

Blóðið: Líftími rauðu blóðkornanna er 80-120 dagar. Á hverri sekúndu deyja tvær milljónir rauðra blóðkorna en ný myndast að sama skapi í beinmergnum.

Húðin er stærsta líffæri mannslíkamans og hún veitir okkur vörn gegn umhverfinu. Ysta húðlagið er samsett af dauðum húðfrumum, sem smám saman eyðast, en nýjar frumum myndast í innsta laginu. Það tekur frumurnar venjulega um mánuð að fara þessa leið, úr innsta laginu út í það ysta.

Heilinn: Taugafrumurnar í heilanum eru taldar hafa náð hámarksfjölda í kringum 10 ára aldur. Taugafrumurnar eru það ógnarmargar að það hefur ekki áhrif á hegðun okkar að þeim fækkar eitthvað.

Hárið á okkur vex ekki jafnt og þétt, heldur tekur spretti og vex síðan ekkert þess á milli. Af og til leggjast hársekkirnir í dvala en svo taka þeir aftur við sér, nýtt hár myndast og við missum það gamla.

Neglurnar vaxa jafnt og þétt-u.þ.b. 0,1 mm á dag. Þær endurnýja sig yfirleitt á mánaðar fresti en enn þá hraðar hjá þeim naga á sér neglurnar. Á veturnar getur hægt svolítið á vextinum, og neglur barna og aldraðra vaxa hægar en neglur fólks á öðrum aldursskeiðum. Ef við myndum ekki klippa á okkur neglurnar myndu þær verða mjög langar og vinda upp á sig eins og hrútshorn.

Nýrun: Um 45 ára aldur er starfsemi nýrnanna orðin um 88% af því sem hún var 20 árum áður. Nýrun hafa gífulega aðlögunarhæfni, og ef annað þeirra bilar þá tekur hitt við og sér um starfsemi þeirra beggja.

Lifrin: Endurnýjunarhæfileikar lifurinnar eru með ólíkindum. Þótt 7/8 hlutar hennar séu fjarlægðir með skurðaðgerð getur sá litli hluti sem eftir er, vaxið í nánast sömu stærð og lifrin var. Einnig er hægt að græða lítinn bút af lifur í manneskju og þá vex ný lifur. Eins og gefur að skilja þá er endurnýjun hraðari hjá börnum sem eru að vaxa, en hjá fullorðnu fólki. Það fer geysilega mikil orka í þessi endurnýjunarferli og um 20% af heildarorku fullorðinna fer í að endurnýja prótein í líkamanum.

Ja hérna ...alltaf er maður að læra eitthvað nýtt!

Guðbjörg Magnúsdóttir