Rings

Ofþjálfun og beinþynning

Til þess að öðlast „hinn fullkomna kvenlíkama“ þarf auðvitað að púla í ræktinni og velflestar konur, a.m.k. í yngri kantinum, hafa einhvern tímann lagt leið sína líkamsræktarstöð í þeim tilgangi. Það sem fæstir vita er að þótt líkamleg þjálfun sé nauðsynleg fyrir heilsuna geta konur gengið of langt í að þjálfa líkamann. Beinþynning vegna ofþjálfunar er t.d. þekkt meðal íþróttakvenna og talað hefur verið um „áhættuþríhyrning íþróttakonunnar“; helstu áhættuþætti kvenna sem æfa of mikið og nærast illa en þeir eru tíðastopp, beinþynning og átröskunarsjúkdómar. 

Hættulegar afleiðingar

Halldóra Björnsdóttir hjá Beinvernd segir tölur um beinþynningu vegna ofþjálfunar ekki liggja fyrir hér á landi en gerir ráð fyrir að þær séu sambærilegar og hjá öðrum vestrænum þjóðum. Orsakir beinþynningar eru estrógenskortur í líkamanum en kvenhormónið estrógen er nauðsynlegt til beinmyndunar. Skortur á estrógeni hefur einnig þau áhrif að tíðir konunnar falla niður. „Talað er um að ofþjálfun hjá stúlkum fylgi oft þyngdartap og minnkuð hormónaframleisla, sem leiðir til stöðvunar tíðablæðinga. Ef tíðablæðingar stöðvast til lengri tíma myndast ekki nægjanlegt beinmagn í líkamanum. Beinþynningin tengist því tíðahringnum mikið – þetta hangir allt á sömu spýtunni.“ Hver og einn getur náð ákveðinni hámarksbeinþéttni sem ræðst af hluta til af erfðum en lífshættir hafa einnig áhrif. Beinþéttnin nær hámarki um tvítugt og eru árin frá tíu ára til tvítugs afar mikilvæg hvað þetta snertir. „Líkamleg hreyfing og gott mataræði hefur jákvæð áhrif á beinin en ofþjálfun hefur neikvæð áhrif. Ef stúlkur æfa of mikið og nærast illa verða beinin ekki nógu sterk og hættan á að brotna af völdum beinþynningar síðar á ævinni eykst.“ Beinþynning vegna ofþjálfunar finnst t.d. í röðum afreksíþróttakennara. „Algengust er hún hjá þeim sem stunda íþróttir þar sem krafan er að allir séu mjóir og léttir eins og í fimleikum, langhlaupum og ballet. Sá hópur er einnig í meiri hættu en aðrir á að þróa með sér átröskunarsjúkdóma á borð við lystarstol og lotugræðgi.“ Þess má geta að stúlkur með tíðastopp vegna lystarstols eða ofþjálfunar tapa beinmassa á við konur í tíðahvörfum og samkvæmt rannsóknum á þessu sviði eykst beinmassinn lítið sem ekkert þótt reglulegar tíðir hefjist á ný eða hormónameðferð sé beitt. 

Höfundur: Heiðdís Lilja
Grein úr Nýju lífi