Rings

Samfarir slæmar fyrir hjartað?

samfarirSænsk rannsókn bendir til þess að kynlífsiðkun geti aukið líkur á hjartaáfalli hjá fólki með hjarta- og æðasjúkdóma. Þetta virðist sérstaklega eiga við um fólk sem sjaldan reynir á sig og er því ekki í góðu líkamlegu formi. Þegar slíkir einstaklingar eiga í hlut getur hættan á hjartaáfalli aukist allt að fjórfalt. Þessar niðurstöður stangast reyndar á við eldri rannsóknir á tengslum kynlífs og hjartaáfalla sem sýndu að það styrkti heilsu hjartasjúklinga að lifa fjörugu ástarlífi.

Samkvæmt sænsku rannsókninni, sem framkvæmd var af læknum við Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi, er hættan á hjartaáfalli í kjölfar kynlífs mest hjá of þungu fólki yfir fimmtugt. Rannsóknin er byggð á viðtölum við 650 einstaklinga sem lagðir voru inn á spítalann eftir að hafa fengið hjartaáfall í fyrsta sinn. Um 75% sjúklinganna voru karlar á aldrinum 45-60 ára svo örlítið óvíst er að niðurstöðurnar eigi jafnt við um konur og karlmenn. Sænsku læknarnir leggja áherslu á að fólk með hjarta- og æðasjúkdóma hætti ekki að stunda kynlíf af ótta við að veikjast. Betra sé að stunda líkamsrækt reglulega og koma sér þannig í gott form – þá verði áreynslan við samfarir ekki jafnmikil viðbrigði fyrir skrokkinn.
Samkvæmt eldri rannsóknum má rekja um eitt af hverjum hundrað hjartaáföllum til kynlífsiðkunar.

Höfundur: Jónína Leósdóttir
Grein úr Nýju lífi