Svo ástin kulni ekki...
Það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því að mörg hjónabönd enda með skilnaði. Hvorki er boðið upp á bólusetningu né tryggingar sem verja okkur fyrir hjónaskilnuðum og sárum afleiðingum þeirra. Hins vegar getum við ýmislegt gert til að varna því að tilfinningarnar kólni og sambandið staðni í hvundagslegum viðjum vanans. Það er margt vitlausara en að líma eftirfarandi 10 ráð upp á ísskápshurðina eða á annan stað þar sem við rekum oft augun í þau:
TJÁNING
Venjið ykkur á að tjá tilfinningar ykkar og lýsa skoðunum ykkar, hvort sem um er að ræða smámál eða stórmál. Þið getið ekki ætlast til þess að makinn viti hvernig ykkur líður ef þið segið það ekki upphátt. (Það er ekki nóg að gefa það í skyn með látbragði!)
NÆÐI
Takið reglulega frá tíma sem er aðeins fyrir ykkur tvö. Það er mjög mikilvægt að eiga saman ljúfar stundir t.d. á göngu úti í náttúrunni, á kaffihúsi eða í heitu freyðibaði eftir að börnin eru sofnuð.
SKJÓT VIÐBRÖGÐ
Vandamál láta á sér kræla í flestum hjónaböndum. Galdurinn er sá að bregðast fljótt við og leysa málið áður en þau ná að skjóta djúpum rótum og eitra út frá sér.
GLEÐI
Gerið sem mest af því að gleðja makann með ýmsum hætti og sýna honum þannig ást og virðingu. Það er þó ekki nauðsynlegt að færa makanum dýra skartgripi eða bjóða honum í utanlandsferðir. Sem dæmi um frábæra gleðigjafa má nefna gott nudd, gómsæta máltíð og litla miða með ástarjátningum.
ENDURMINNINGAR
Rifjið sem oftast upp hvað það var sem þið hrifust mest af í fari makans á fyrstu mánuðum sambandsins.
LÍTIL NAFLASKOÐUN
Stundum getur verið gott að velta málum vel og lengi fyrir sér og ræða um þau fram og til baka. Hafið hins vegar einnig í huga að hægt er að gera of mikið af því að pæla í vandamálunum. Beinið fremur sjónum ykkar að því jákvæða en því neikvæða.
HIÐ ÓVÆNTA
Látið sambandið ekki festast í sama hjólfarinu og verða þar leiðindum og grámyglu að bráð. Komið makanum á óvart af og til með frumlegum uppátækjum. Það kryddar sambandið og viðheldur ástinni.
TILLITSSEMI
Reynið eftir fremsta megni að breytast ekki smám saman í nöldurskjóður. Gætið þess líka að gagnrýna ekki um of fjölskyldu og vini maka ykkar. Enginn vill heyra talað illa um fólk sem honum þykir vænt um.
DAÐUR
Þið haldið áfram að taka eftir fólkinu í kringum ykkur þótt þið séuð komin í hnapphelduna og hóflegt daður getur verið gott fyrir sjálfstraustið. Látið það ekki setja ykkur úr jafnvægi þótt sá heittelskaði (eða sú heittelskaða) daðri svolítið. Þið þurfið að búa yfir nægu sjálfsöryggi til að makinn skynji að betri kostur fyrirfinnst ekki í víðri veröld.
SJÁLFSTÆÐI
Þótt mikilvægt sé að hjón séu náin er það ekki gott fyrir sambandið ef annar aðilinn verður of háður hinum. Sjálfstæður einstaklingur er spennandi og hrífandi, m.a. kynferðislega. Ósjálfstæði dregur aftur á móti úr kynferðislegu aðdráttarafli fólks og getur jafnvel gengið að ástinni dauðri.